Heilsufræðsla

HEILSULÆSI

Hvað er heilsulæsi?

Heilsulæsi er tiltölulega nýtt orð og er þýtt úr ensku (Health Literacy). Heilsulæsi felst í hæfni einstaklings til að afla sér þekkingar, skilja og hagnýta sér heilsutengdar upplýsingar. Slík hæfni er nauðsynleg til að geta tekið vel upplýstar ákvarðanir varðandi heilsuna og notið bestu heilsu eða upplifað vellíðan.  Þetta á við um öll heilsutengd málefni, t.d. almenna heilsufræði, heilsueflingu og að þekkja þá þætti sem geta haft áhrif á eigið líf og heilsufar. Sömuleiðis þarf þekkingu og hæfni til að vita hvenær og hvert á að leita eftir aðstoð og nýta sér heilsutengda þjónustu sem stendur til boða í samfélaginu.

Hvers vegna er gott heilsulæsi mikilvægt?

Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt að 9 af hverjum 10 einstaklingum eigi erfitt með að skilja þær upplýsingar sem þeir fá hjá fagfólki við heilsugæsluþjónustu, í fjölmiðlum og frá stofnunum. Margir fylgja t.d. ekki nákvæmlega þeim leiðbeiningum sem þeir fá frá læknum eða fylgja lyfjum og segja til um hvernig á að taka lyfið, en verkun margra lyfja er þó háð því að það sé rétt tekið.

Heilsulæsi byggist á einstaklingsbundnum þáttum og áhrifum kerfisins, t.d.

 • Samtalshæfileikum þjónustuþega og þjónustugjafa
 • Þekkingu og persónuleika þeirra sem þiggja og veita heilsuþjónustuna
 • Menningalegum þáttum (tungumál, trú, hefðum)
 • Kröfur um heilbrigðisþjónustu og aðgengi fólks að heilbrigðiskerfi
 • Kröfur vegna aðstæðna og mikilvægi yfirstandandi samskipta tengt heilsu

AUKUM HEILSULÆSI Á ÍSLANDI!

Hversu heilsulæs ert þú?

Ef þú hugsar þér matsskala frá 0 til 10 þar sem manneskja er telur sig vera óheilsulæsa hefur 0 en sú sem telur sig vera ágætlega heilsulæsa hefur 10. Hvaða tala myndi passa best fyrir þitt heilsulæsi miðað við áðurnefnda skilgreiningu á heilsulæsi?

Heilsulæsi hefur áhrif á getu fólks til að:

 • Rata gegnum heilbrigðiskerfið; þ.e. finna leið til að fá þjónustu sem passar, geta lesið heilsuupplýsingar og fyllt út eyðublöð
 • Gefa réttar heilsuupplýsingar til þjónustugjafa eins og nákvæma heilsufarsögu, hvernig hefur ástandið þróast og helstu einkenni
 • Viðhafa góða sjálfsumönnun og forvarnir, vera nákvæm/ur í að framfylgja fyrirmælum varðandi meðferð sjúkdóms
 • Skilja tölfræði heilbrigðis; líkindareikning varðandi áhættu, t.d. líkur á að fá sjúkdóm eða bata miðað við daglegar venjur, þekkja eigin mælingar á t.d. kólesteróli og sykri í  blóðprufu og miða við hvaða tölur eru innan eðlilegra marka

Dæmi um gott heilsulæsi er þegar viðkomandi:

 • Hefur góða þekkingu og veit hvað hefur góð (eða slæm) áhrif á heilsuna
 •  Hefur getu til að meta áhrif daglegs lífs á heilsufar. T.d. hvað er hollt og uppbyggjandi eða það sem raskað getur andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð
 •  Þróar vaxandi innsæi og leikni getur tekist á við verkefni lífsins til að auka lífsgæði (skilur tilgang atferlis og sér hvernig það tengist vellíðan)
 • Metur jákvæð samskipti og leggur sig fram til að ná leikni við að leysa úr verkefnum sem tengjast velferð
 • Temur sér heilsuhugsun eða heilbrigðisviðhorf til að skerpa eigin sýn á leiðir til að ná og viðhalda besta mögulega heilbrigði til framtíðar
 • Hefur getu til að greina eigin aðstæður og leita eftir þjónustu með samskiptum sem henta aðstæðum
 • Getur rýnt til gagns þá þjónustu sem veitt er og séð ef eitthvað má betur fara.  Hefur næga þekkingu til að orða skoðun sýna og leita bestu úrræða og þar með stuðla að kostnaðarhagkvæmni fyrir sig og samfélgið

Dæmi um lélegt heilsulæsi er þegar viðkomandi:

 • Á í erfiðleikum með að afla, skilja og hagnýta sér heilsutengdar upplýsingar (t.d. lesa, skrifa og tala um heilbrigðismál, gera greinarmun á vönduðu og óvönduðu fræðsluefni á veraldarvefnum). Afleiðingin getur haft víðtæk og hamlandi áhrif á viðkomandi:
 • Takmarkanir við að fá, halda og njóta sín í starfi og í samfélaginu
 • Erfiðara að ná eigin markmiðum í lífinu
 • Hindrar eigin þekkingarleit og möguleika til að ná að njóta sín til fullnustu
 

Hversu heilsulæs við erum hefur því töluverð áhrif á líf okkar.  Sá sem er læs á eigin heilbrigði veit hvað hefur góð áhrif á heilsuna og ekki síður hefur sá heilsulæsi þekkingu og getu til að lesa í ýmislegt sem á vegi hans verður og greina á milli þess sem er hollt og hins sem raskar ró hans líkamlega eða sálarlega. Með heilsulæsi vex innsæi og leikni til að takast á við verkefni lífsins.  Það er ábyrgðarskylda heilbrigðisstarfsfólks að fræða fólk um áríðandi atriði sem geta verndað heilsuna. Flest fagfólk leggur sig fram við að fræða skjólstæðinga sína enda tilheyrir það starfssviði þeirra. Það gerist þó að upplýsingarnar eru of læknisfræðilegar eða tæknilegar þannig að áheyrandinn skilur þær ekki. Í sumum tilfellum er manneskjan ekki móttækileg fyrir upplýsingunum, t.d. vegna áfalls eftir að hafa heyrt neikvæða sjúkdómsgreiningu. Að miðla notendavænum og skiljanlegum upplýsingu sem fólk getur tileinkað sér ætti að vera forgangsatriði í öllum samskiptum við skjólstæðinga.

Fólk getur lært um hvað og hvernig er best að spyrja fagfólk. Hægt er að leita upplýsinga um ákveðin heilsuatriði á netinu eða í bókasöfnum og skrifa spurningar á blað áður en farið er til þjónustuaðila. Það kemur í veg fyrir að fólk gleymi að spyrja um atriði sem því fannst áríðandi að vita um í tengslum við viðfangsefnið. Fagorð eru mörg í heilbrigðisvísindum og það er mjög eðlilegt að fagfólk gleymi að tala við þjónustuþega á almennu (skiljanlegu) tungumáli.  Þú þarft að vita að það er réttur þinn að halda áfram að spyrja þar til þú hefur náð að skilja upplýsingarnar eða leiðbeiningarnar. Með gagnrýnu heilsulæsi erum við betur fær um að horfa ekki þegjandi á aðgerðir sem ógna heilbrigði heldur hafa skoðun fyrir okkur sjálf og samborgarana og gera eitthvað í málinu.

 

Heilsuheilræði ehf.

Ásakór 3, #503
203 Kópavogur
Sími: 775 6677
heil@heil.is

Heilsufréttir

Vertu áskrifandi að nýjustu heilsufréttum frá okkur og fáðu hvatningu um heilsueflingu senda til þín án kostnaðar.

Skrá mig!