Heilsukorn

Daglegar venjur sem minnka tannskemmdir

Hugsar þú vel um tennurnar?                                      

- Burstar tennur tvisvar á dag og hreinsar munnhol

- Notar tannþráð til að hreinsa milli tanna einu sinni á dag

- Borðar hollan mat í hæfilegu magni á matmálstímum (forðast mikil sætindi og að vera síborðandi)

- Sleppa reykingum og notkun munntóbaks

 

 

 

Hvernig finnst þér munnheilsa þín vera?

 

Góð munnheilsa felst í einkennalausu munnholi og heilum eða viðgerðum tönnum

 Til dæmis að vera laus við blæðingu þegar tennur eru burstaðar, andfýlu, munnþurrk og finna tannlos

Ef þú vilt skapa nýjar heilsuvenjur til að bæta munnheilsu og heilsufar þitt skiptir aldurinn ekki máli, það tekur því alltaf að bæta sig ....

1. Bursta tennur

Til að halda tönnunum heilbrigðum er nauðsynlegt að hreinsa þær vel. Tannburstun skal framkvæma tvisvar á dag, í tvær mínútur í senn. Gott er að byrja og enda daginn með hreinar tennur. Á yfirborð tanna sest skán sem inniheldur bakteríur og matarleifar, hana þarf að hreinsa reglulega svo koma megi í veg fyrir tannsjúkdóma.  Leiðbeiningar um tannburstun má finna á vef Landlæknisembættis. Hafa skal í huga að með að bursta tennurnar of fast og lengur en þörf krefur getur það valdið skaða.  Of mikil og föst burstun með hörðum bursta getur skemmt glerunginn og skaðað góminn án þess að gera tennurnar hreinni en hæfileg burstun gerir.  Öll fjölskyldan getur notað sama tannkremið með mildu bragði. Tannburstinn á að vera með mjúkum hárum og fá nýjan bursta reglulega (a.m.k. á 3ja mánaða fresti).

Hér má nálgast myndskeið um tannhirðu á mismunandi aldri frá Landlæknisembætti.

2. Nota tannþráð

Tannþráður er nauðsynlegur til daglegrar munnhirðu til að fyrirbyggja gómsjúkdóma. Ekki er nóg að bursta tennurnar, það þarf líka að nota tannþráð einu sinni á dag til að ná að hreinsa alla fleti hverrar tannar. Það er gert með tannbursta og tannkremi, en einnig tannþræði því tannburstinn nær ekki að hreinsa nema þrjár af fimm hliðum tannanna. Góð regla er að nota tannþráð fyrst og bursta svo. Þú getur notað þá tegund af tannþræði sem þér líkar best við. Vaxborinn tannþráður smýgur vel á milli tanna þar sem tannbilin eru þröng, þráður sem inniheldur flúor styrkir glerung tanna, þráður með bragðefni gefur ferskara bragð í munninn. Börn geta ekki séð um tannhirðuna sjálf fyrr en 10‐12 ára og sum þurfa aðstoð með tannþráðinn lengur. Leiðbeiningar Landlæknisembættis um notkun tannþráðs.

Hér má sjá myndskeið sem sýnir æskilega tannhirðu og hvernig tannþráður er notaður fyrir ýmis aldursskeið (Landlæknisembætti)

3. Borða hollan mat og hafa góðar neysluvenjur

Neysluvenjur skipa miklu máli til að vernda tennurnar.  Hugsa þarf um að borða hollan mat á reglulegum matmálstímum og forðast sætmeti. Sífellt nart er varnarkerfinu ofviða og þeir sem stunda sífellda gosdrykkju baða tennur sínar stöðugt úr sykri og tannsýkla nær að safnast fyrir. Glerungseyðing er vágestur sem herjar á Íslendinga. Gosdrykkir og aðrir súrir drykkir eyða glerungi á tönnum margra barna og ungs fólks með óbætanlegum skaða (sjá mynd af sykurbrenndum tönnum). Sumir ávaxtasafar eru litlu betri svo það þarf að lesa vel utan á umbúðir matvæla og drykkja. Kolsýrt vatn breytir einnig sýrustigi í munni. Kalt vatn er besti svaladrykkurinn

4. Reglulegt eftirlit tannlæknis stuðlar að betri tannheilsu

Mælt er með að skapa fljótlega mjög fastar lífsvenjur til að efla tannheilsu og bursta tennur eftir morgunmat og fyrir nóttina. Tannvernd þarf að hefjast sem fyrst á lífsleiðinni og ekki síðar en við komu á fyrstu tönn. Sem foreldri gegnir þú lykilhlutverki í tannvernd barna þinna. Æskilegt er að fara með barn í fyrstu heimsókn til tannlæknis eigi síðar en milli tveggja og þriggja ára aldurs. Slík heimsókn ætti síðan að vera árleg eða eftir þörfum og samkvæmt leiðbeiningum tannlæknis.

Heimildir: Vefur Landlæknisembættis (2016)

Mayo Clinic (2016). Oral health: A window to your overall health

http://www.mayoclinic.org/healthy-lifestyle/adult-health/in-depth/dental...

Heilsuheilræði ehf.

Ásakór 3, #503
203 Kópavogur
Sími: 775 6677
heil@heil.is

Heilsufréttir

Vertu áskrifandi að nýjustu heilsufréttum frá okkur og fáðu hvatningu um heilsueflingu senda til þín án kostnaðar.

Skrá mig!